1. Almennir skilmálar/þjónustuskilmálar
- Almennt um þjónustuna og kerfið
- Abler er tölvukerfi sem er aðallega ætlað þjálfurum, iðkendum, foreldrum, og starfsmönnum íþróttafélaga. Í Abler geta þjálfarar stillt upp leikja- og æfingaplani, skipt í lið/hópa og gert breytingar með einföldum aðgerðum í þjálfaraviðmóti kerfisins. Iðkendur geta tengst kerfinu, haft yfirsýn yfir sína dagskrá og verið í samskiptum við þjálfarana. Foreldrar geta tengst börnum sínum og fylgst þannig með dagskrá barnanna og verið í samskiptum við þjálfara. Íþróttafélagið getur innheimt æfingagjöld og tekið við öðrum greiðslum fyrir ýmisskonar viðburði, varning og þjónustu. Með kerfinu eiga allir sem koma að íþróttastarfinu að hafa góða yfirsýn yfir dagskrána og komið hverskyns tilkynningum/breytingum á framfæri á aðgengilegan hátt og stýrt upplýsingagjöf þannig að eingöngu þeir sem upplýsingarnar varða fái tilkynningu í hver skipti. Hugbúnaðurinn verður aðgengilegur bæði í vafra og snjallsímum fyrir IOS og Android.
- Nóri er skráningar og greiðslukerfi sem er notað af aðilum sem standa fyrir íþrótta og tómstundastarfi til þess að taka við skráningum og greiðslum, halda utan um ferilskrá, mætingar o.fl. sem tengist starfssemi og utanumhaldi slíkra félaga.
- Hvati er tölvukerfi sem er aðallega ætlað sveitarfélögum til þess að halda utan um frístundastyrki sveitarfélaganna og úthluta þeim á rafrænan hátt.
Verðskrá og breytingar - Notkunartímabil er almanaks mánuður. Gjalddagi reikninga fyrir notkun og þjónustu ABLER er fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að notkunartímabili lýkur og eindagi 10 dögum síðar. Vextir reiknast af gjaldfallinni skuld frá gjalddaga. Skilvísar greiðslur eru skilyrði þess að ABLER sé bundið af samningi þessum.
- Séu reikningar ekki greiddir á eindaga er ABLER heimilt að loka aðgangi viðskiptavinar að hugbúnaði þar til skuld viðskiptavinar er greidd eða um hana samið. Einnig er ABLER heimilt að skuldajafna tekjur viðskiptavinar á móti gjaldföllnum reikningum hans.
- Framboð vöru og þjónustu og verð fyrir afnot af hugbúnaði ABLER er ákvarðað af ABLER hverju sinni. Félagið hefur verið upplýst um að vegna eðlis hugbúnaðarþróunar og reksturs hugbúnaðalausna sem oft á tíðum byggja á tæknilausnum frá þriðja aðila (t.d. Google Cloud) geti ABLER hins vegar ekki tryggt að verð og framboð haldist ávallt óbreytt og áskilur ABLER sér allan rétt í því sambandi. Félagið getur því ekki gengið að því vísu að fá sömu þjónustu fyrir sama verð um ókomna tíð. ABLER áskilur sér rétt til að gera breytingar á verði á hugbúnaði og þjónustu tilgreindri í þessum samningi.
- ABLER skal tilkynna um fyrirhugaðar verðbreytingar eigi síðar en 30 dögum áður en slík verðbreyting tekur gildi. Við verðbreytingu hefur félagið heimild til að segja upp samningi þessum innan 30 daga frá því að fyrirhuguð veðbreyting var kynnt og gildir þá uppsagnarfrestur samkv. samningi aðila. ABLER mun ávallt reyna að tilkynna um slíkar breytingar með góðum fyrirvara. Félagið gerir ekki athugasemd við þetta.
- Almennt eru samningar um hugbúnað ABLER tengdir við launavísitölu og tekur gjald fyrir hugbúnað og þjónustu breytingum í samræmi við breytingar vísitölunnar nema um annað sé samið sérstaklega og kemur það þá fram í skilmálum samnings á milli aðila.
Upplýsingar; tilgangur vinnslu, ábyrgð á þeim og um meðferð þeirra - Samningsaðilar skulu bundnir af öllum viðeigandi lagaákvæðum sem varða vinnslu persónuupplýsinga hjá þeim, einkum reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679, frá 27. apríl 2016, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almennu persónuverndarreglugerðinni) sem kom til framkvæmda 25. maí 2018.
- Félagið ber ábyrgð á því að upplýsingar sem færðar eru í hugbúnað ABLER vegna starfsemi þess séu réttar. ABLER getur aðstoðað við uppsetningu iðkendalista en upplýsingar sem færðar eru inn í hugbúnaðinn munu eingöngu koma frá félaginu, starfsmönnum þess eða iðkendum. Abler ber ekki ábyrgð á því að upplýsingar sem berast frá félaginu séu réttar.
- Félagið ber ábyrgð á að aðilar á hans vegum, þ.m.t. þjálfarar, innleiðingarstjóri og annað starfsfólk, sem kann að hafa aðgang að upplýsingum um iðkendur í gegnum hugbúnaðinn, umgangist slíkar upplýsingar með virðingu og noti ekki í tilgangi sem samræmist ekki tilgangi með öflun þeirra. ABLER ber ekki ábyrgð, hvorki beint né óbeint, á því hvernig félagið eða aðilar á þess vegum umgangast slíkar upplýsingar.
- Félagið og notendur hugbúnaðarins eru ábyrgir fyrir öllu efni sem þeir birta í hugbúnaði ABLER og öllum skilaboðum sem þeir senda. ABLER ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á orðum eða athöfnum félagsins, eða aðila á þess vegum, í hugbúnaðinum, né heldur orðum eða athöfnum annarra notenda hugbúnaðarins.
- Tilgangur upplýsingaöflunarinnar er að búa til vettvang til að bæta utanumhald um starfsemi félagsins, gera aðgengi að upplýsingum einfaldara og þægilegra og auka þannig yfirsýn notenda yfir dagskrá sína, og að einfalda samskipti notenda við starfsmenn hjá félagsins.
- Abler er heimilt að safna ópersónugreinanlegum upplýsingum um notendur Abler og notkun á hugbúnaðinum gagnagrunn sinn. Tilgangur þeirrar gagnaöflunar er t.a.m. að nota gögn og notkunarupplýsingar til að þróa og bæta hugbúnaðinn, og í einhverjum tilvikum svo hægt sé að greina þróun í íþrótta- og tómstundastarfi. Einu upplýsingarnar sem Abler kann í kjölfarið að deila með þriðja aðila eru tölfræðiskýrslur og/eða – greiningar sem byggja á samantektum og ópersónugreinanlegum gögnum frá hópi notenda Abler.
- Abler er heimilt að senda út kannanir til notenda hugbúnaðarins, sem notendur hafa val um að svara, og gerir félagið ekki athugasemd við það. Tilgangur þeirra kannanna er að efla íþróttastarf og auka notagildi hugbúnaðarins, m.a. með því að greina þróun og árangur í íþrótta- og tómstundastarfi, notendum og félaginu til hagsbóta. Kannanirnar geta þannig t.a.m. haft það að markmiði að kanna viðhorf notenda til íþrótta- og tómstundarstarfs, líkamlegt og andlegt atgervi notenda, þjónustustig sveitafélags eða íþróttafélaga o.s.frv., allt í því skyni að efla íþrótta- og tómstundastarf hér á landi. Abler kann að starfa með þriðju aðilum við gerð slíkra kannana, einkum háskólum eða öðrum rannsóknarstofnunum, en mun þá tryggja trúnað og að lögum og reglum um meðferð persónuupplýsinga sé fylgt. Félagið hefur verið upplýst um að einu upplýsingarnar sem Abler kann í kjölfar slíkra kannana að deila með þriðja aðila eru tölfræðiskýrslur og/eða -greiningar sem byggja á samantektum og ópersónugreinanlegum gögnum frá hópi notenda Abler.
- Abler er heimilt að setja á heimasíðu sína eða í annað kynningarefni lógó og efni frá félaginu. Í því fellst m.a. tilvitnanir, viðtöl eða myndbrot af starfsmönnum, iðkendum og/eða þjálfurum félagsins. Slíkar tilvitnanir, viðtöl eða myndbrot skal þó ekki birta án fyrirfram samþykkis þeirra sem í hlut eiga. Abler er óheimilt að nota það efni í þágu annarra aðila eða afhenda það þriðja aðila og notkun Abler á slíku efni mun uppfylla skilyrði þeirra reglna um persónuvernd sem gilda á hverjum tíma. Abler er heimilt að upplýsa á heimasíðu og annarsstaðar að félagið sé meðal viðskiptavina Abler, þó þannig að gætt sé trúnaðar um inntak samnings aðila.
- Abler er heimilt að birta efni og auglýsingar frá sér eða frá þriðja aðilum í notendaviðmóti hugbúnaðarins, bæði á vefsvæði og snjallsímaforriti hugbúnaðarins. Abler skal þó ávallt gæta varkárni í þeim efnum og gæta þess að efnið eða auglýsingar henti notendum hugbúnaðarins með tilliti til aldurs og efni auglýsinga.
Sérstakar skyldur ABLER - ABLER lýsir því yfir að það heitir fullum trúnaði við meðferð allra persónuupplýsinga og vísar að öðru leiti í vinnslusamning á milli aðila um nánari útfærslu á þeirri vinnslu.
- ABLER skuldbindur sig til að:
a. vinna eingöngu persónuupplýsingar í samræmi við tilgang vinnslunnar, sbr. vinnslusamning á milli aðila.
b. vinna eingöngu persónuupplýsingar samkvæmt fyrirmælum félagsins. Telji ABLER slík fyrirmæli ekki samrýmast gildandi reglum og lögum um persónuvernd, ber ABLER að tilkynna félaginu slíkt án tafar. Þá skal ABLER gera félaginu viðvart ef ABLER er skylt samkvæmt lögum að flytja persónuupplýsingar til þriðju landa eða alþjóðastofnana, nema lög banni að upplýst sé um slík;
c. tryggja trúnað um vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem þessi samningur tekur til;
d. tryggja að starfsmenn ABLER sem hafa aðgang að persónuupplýsingum í tengslum við framkvæmd samningsins hafi undirritað trúnaðaryfirlýsingu og fái viðeigandi þjálfun í vernd persónuupplýsinga; og
e. gæta þess að tæki og tól, vörur, forrit og þjónusta séu hönnuð með innbyggða og sjálfgefna persónuvernd að leiðarljósi. - ABLER er heimilt að semja við annan aðila („undirvinnsluaðila“) um að framkvæma tilteknar vinnsluaðgerðir. Áður en ætlaðar breytingar taka gildi, bæði þegar bætt er við undirvinnsluaðila og þegar gerðar eru breytingar á þeim undirvinnsluaðilum sem þegar hefur verið samið við, eða þegar um er að ræða viðbætur eða breytingar á gildandi fyrirkomulagi vinnsluaðgerða, skal ABLER upplýsa félagið skriflega um fyrirhugaðar breytingar. Þar skal sérstaklega taka fram hvaða vinnsluaðgerðir undirvinnsluaðilinn hyggst taka að sér, nafn og samskiptaupplýsingar undirvinnsluaðilans ásamt dagsetningu samnings. Ábyrgðaraðili hefur þá 10 daga frá þeim degi sem hann móttekur upplýsingar um breytingar á notkun undirvinnsluaðila til að andmæla þeim.
- ABLER skal aðstoða félagið við að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd, ef eftir því er óskað.
- ABLER skal aðstoða félagið við að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um fyrirframsamráð við Persónuvernd, ef eftir því er óskað.
Öryggisráðstafanir - Frá og með gildistökudegi skilmálanna mun ABLER innleiða og viðhalda þeim öryggisráðstöfunum sem lýst hér. ABLER kann að uppfæra eða breyta slíkum öryggisráðstöfunum öðru hverju að því tilskildu að slíkar uppfærslur og breytingar leiði ekki til skerðingar á heildaröryggi vinnslunnar.
Reglulegt áhættumat - ABLER mun reglulega meta áhættuþætti upplýsingaöryggis í tengslum við persónuupplýsingar og mikilvæga starfsemi notandans. Öryggisstjóri ABLER , sem einn stjórnenda fyrirtækisins, hefur með höndum að efna þá skyldu ABLER að tryggja gagnaöryggi.
Öryggisferlar innan ABLER - ABLER skal gera ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga með tilliti til hugsanlegra mannlegra mistaka, einkum og sér í lagi með því að:
a. Koma á fót og viðhalda innri eftirliti með, og skjölum um, innra öryggi hjá fyrirtækinu;
b. tryggja reglulega fræðslu starfsmanna um reglur um meðhöndlun persónuupplýsinga og hættu sem steðjar að upplýsingaöryggi;
c. tryggja að allir starfsmenn, verktakar, þjónustuveitendur og aðrir þriðju aðilar sem hafa aðgang að persónuupplýsingum beri samningsbundna ábyrgð í þessu tilliti;
d. koma á fót og viðhalda ferlum í tengslum við vinnu með lykilgögn í starfsemi ABLER, einkum persónulegra notenda.
Tæknilegar ráðstafanir - ABLER skal gera viðeigandi tæknilegar ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, einkum og sér í lagi með:
a. Vírusvarnarlausn fyrir miðlara/þjóna (e. servers) til verndar gegn spilliforritum (e. malware);
b. Netöryggislausn sem sameinar eldveggi, netstillingar og aðra tækni;
c. Dulkóðun gagnaflutnings í kerfi ABLER með HTTPS;
d. Öruggri geymslu persónuupplýsinga í SQL gagnagrunni á miðlaranum innan ESB/EES; og
e. Öryggisafritum af mikilvægum gögnum og innviðum.
Öryggi starfsstöðva - Til að tryggja öryggi persónuupplýsinga sem eru geymdar á skriflegu formi og í upplýsingatæknibúnaði skal ABLER einkum tryggja eftirfarandi: a. Verkferla og reglur um aðgang að persónuupplýsingum
b. Öryggi húsnæðis og staða þar sem gagnahirslur eru staðsettar.
Réttur notenda (hinna skráðu) - Félagið ber ábyrgð á því að veita iðkendum sínum og notendum hugbúnaðar ABLER (hinir skráðu) upplýsingar/fræðslu um vinnslustarfsemina fyrir eða um leið og vinnsla hefst, í samræmi við ákvæði almennu persónuverndarreglugerðarinnar um upplýsingar sem ber að veita hinum skráða, sbr. m.a. 13. og 14. gr. hennar
- Að því marki sem hægt er ber ABLER, sem vinnsluaðila, að aðstoða félagið, sem ábyrgðaraðila, við að sinna þeirri skyldu sinni að bregðast við erindum skráðra einstaklinga vegna réttinda þeirra, svo sem vegna aðgangsréttar, réttar til leiðréttingar og eyðingar upplýsinga og til að andmæla vinnslu eða takmarka hana, flutningsréttar og réttar til að þurfa ekki að sæta sjálfvirkri ákvarðanatöku, þ.m.t. notkun persónusniða. Þegar hinn skráði leggur fram beiðni um að neyta réttinda sinna hjá ABLER skal ABLER framsenda slíka beiðni án tafar til félagsins og óska eftir heimild til þess að bregðast við beiðninni.
Öryggisbrot - Verði ABLER vart við hvers kyns öryggisbrot skal tilkynna félaginu um það svo fljótt sem verða má, og eigi síðar en 72 klst. eftir að ABLER varð brotsins vart. Með tilkynningunni skulu fylgja hver þau skjöl sem nauðsynleg eru til að félagið geti tilkynnt um brotið til Persónuverndar.
- Félagið skal þá jafnframt tilkynna hinum skráðu um öryggisbrotið á skýru og einföldu máli og lýsa í það minnsta eftirfarandi:
- Eðli öryggisbrotsins, þ.m.t., þegar það á við, flokkum og gróflega áætluðum fjölda þeirra einstaklinga sem verða fyrir áhrifum af brotinu og flokkum og magni þeirra gagna (e. records) sem um ræðir;
- Nafni og samskiptaupplýsingum persónuverndarfulltrúa eða annars tengiliðar þar sem hægt er að nálgast frekari upplýsingar;
- Hverjar séu líklegar afleiðingar öryggisbrotsins;
- Til hvaða aðgerða hafi verið gripið eða lagt til að gripið verði til að bregðast við brotinu, þ.m.t., þar sem það á við, aðgerða til að draga úr áhrifum brotsins á einstaklinga; og
- Til hvaða aðgerða einstaklingarnir geti gripið til að lágmarka tjón sitt, t.a.m. að skipta um lykilorð.
Lok vinnslu - Þegar þjónustu lýkur samkvæmt aðgangs- og notkunarsamningi aðila samþykkir ABLER að skila öllum persónugreinanlegum upplýsingum sem félagið hefur látið ABLER í té.
Vinnsluskrá - ABLER skal halda skrá yfir alla vinnslustarfsemi sem fram fer fyrir ábyrgðaraðila. Í henni skal koma fram eftirfarandi: a. Heiti og samskiptaupplýsingar ABLER og sérhvers félags (ábyrgðaraðila) sem ABLER starfar í umboði fyrir og, eftir atvikum, fulltrúa ábyrgðaraðila eða ABLER og persónuverndarfulltrúa;
b. Flokkar vinnslu sem fram fer fyrir hönd hvers félags (ábyrgðaraðila); og
c. Ef mögulegt er, almenn lýsing á þeim tæknilegu og skipulagslegu öryggisráðstöfunum sem um getur í 1. mgr. 32. gr.
Skjölun vegna sönnunar á reglufylgni - ABLER skal útvega félaginu öll nauðsynleg skjöl til að það geti sýnt fram á reglufylgni og til að félagið eða úttektaraðili geti framkvæmt úttektir, þ.m.t. skoðanir, og veita aðstoð við slíkar úttektir.
Óeðlileg notkun - Telji félagið sig verða vart við óeðlilega notkun eða skráningar í tengslum við iðkendur er það á ábyrgð félagsins að tilkynna slíkt til ABLER sem getur þá brugðist við, t.d. með því að loka á viðkomandi notanda eða, eftir atvikum, eyða upplýsingum.
Ábyrgð - ABLER veitir engar beinar eða óbeinar ábyrgðir varðandi notkun á tölvukerfum ABLER og tekur enga fjárhagslega ábyrgð á skuldfærslum og/eða greiðslum sem gerðar eru í kerfum ABLER. Félagið er meðvitað um eftirlitsskyldu sína á skuldfærslum og öðrum fjárhagsfærslum sem gerðar eru í tölvukerfinu og ber félagið ábyrgð á eftirfylgni gagnvart því að skuldfærslur séu réttar og skili sér á reikninga félagsins. ABLER er ekki færsluhirðir í þeim skilningi að skuldfærslur sem gerðar eru með tölvukerfum ABLER notast við þjónustu 3ja aðila sbr. kortafærslur og útgáfu greiðsluseðla og er vísað í skilmála viðkomandi færsluhirða varðandi þeirra þjónustu.
2. Hugbúnaður
- Félagið leigir afnotarétt af tölvukerfi/um ABLER til notkunar í eigin starfsemi. Umsamið verð afnotaréttar (mánaðargjald) á hugbúnaði er gjaldfært fyrir hvern byrjaðan mánuð og er innheimt í byrjun mánaðar fyrir notkun mánaðarins á undan.
- Ef félagið óskar eftir innlestri gagna úr eldri kerfum eða annarri viðbótarþjónustu er sú vinna unnin í tímavinnu samkvæmt gjaldskrá ABLER, en gera skal áætlun um umfang vinnu áður en vinna hefst og félaginu gerð grein fyrir áætluðum kostnaði, Gjaldskrá ABLER gildir fyrir veitta þjónustu.
- Að öllu jöfnu eru tölvukerfi ABLER ekki aðlöguð sérstaklega fyrir notendur kerfisins. Hvert kerfi er miðlæg lausn sem notuð er af mörgum. Allar ábendingar eru þó vel þegnar um það sem betur má fara af hálfu ABLER og verður reynt að taka tillit til þeirra við uppfærslur á kerfinu eins og mögulegt er.
- Félagið skal tryggja að ekki sé hægt að afrita tölvukerfi ABLER af tölvum hans í hvaða tilgangi sem er. Samkvæmt samningi þessum eru tölvukerfi ABLER eingöngu ætluð til afnota fyrir félagið.
- Samhliða samningi um notkun á tölvukerfum ABLER gera aðilar vinnslusamning vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
- ABLER er heimilt að nota undirvinnsluaðila til að sinna tilteknum verkþáttum, en skal þá tryggja að þeir séu meðvitaðir um og uppfylli lagaskyldur á sviði persónuverndar.
- Félagið telst ábyrgðaraðili og ber ábyrgð á að veita hinum skráða upplýsingar um vinnslustarfsemina í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á að bregðast við erindum einstaklinga vegna réttinda þeirra, svo sem vegna aðgangsréttar, en ABLER aðstoðar hann að því marki sem kostur er. Notkun hugbúnaðarins er að öðru leyti á ábyrgð ábyrgðaraðila, þ.m.t. þær upplýsingar sem hann eða aðrir kjósa að skrá inn í kerfið.
- ABLER á allan höfundarétt af hugbúnaði, aðlögunum og kerfisviðbótum sem smíðaðar eru í tengslum við samning aðila hvort sem um er að ræða sérstakar umsamdar breytingar eður ei. Félaginu er óheimilt að afhenda eintök af viðbótunum öðrum eða heimila öðrum afnot af þeim með neinum hætti, hvort sem er að hluta eða í heild og hvort sem um ræðir viðbæturnar sjálfar eða fylgigögn með þeim.
- ABLER er eigandi að höfundarétti og hvers kyns öðrum réttindum á sviði hugverka og auðkennaréttar, hvort sem um er að ræða vörumerkjarétt, hönnunarrétt, einkaleyfisrétt eða önnur réttindi, hvaða nafni sem þau kunna að nefnast er lúta að hugbúnaðnum. Samningur milli aðila um afnot og þjónustu felur ekki í sér framsal slíkra réttindi, hvaða nafni sem þau nefnast. Með samningi þessum öðlast félagið einungis afnotarétt að hugbúnaðinum. Engin önnur eignarréttindi flytjast til félagsins skv. samningi aðila eða á annan hátt. Félagið skuldbindur sig til að virða og vernda eignarréttindi og önnur réttindi ABLER að hugbúnaðinum.
- Takmörkuð ábyrgð: ABLER ábyrgist að tölvukerfin virka á gildistíma samkvæmt samningi í samræmi við þær upplýsingar sem félagið gefur. Félagið ber alfarið ábyrgð á að kerfið sé notað í samræmi við lög og í samræmi við tilgreinda notkun , öll notkun á kerfinu sem brýtur á einhvern hátt gagnvart lögum er á ábyrgð félagsins en ekki á ábyrgð ABLER. Félagið ber ábyrgð á hvernig gögn sem hugbúnaðurinn skráir eru nýtt, jafnframt ber félagið ábyrgð á að gögn þau er hugbúnaðurinn safnar séu eingöngu notuð í samræmi við hvernig þeirra er aflað og í samræmi við lög. Félaginu er gert ljóst og samþykkir að hugbúnaðurinn er afhentur í því ástandi sem hann er, með öllum þeim göllum sem hugbúnaður getur haft.
- Undanþágur frá ábyrgð: ABLER veitir engar frekari beinar eða óbeinar ábyrgðir varðandi notkun á tölvukerfum ABLER og tekur enga ábyrgð á vandamálum sem upp geta komið við notkun forritsins. Ef félagið uppgötvar hugbúnaðarvillu í tölvukerfi ABLER, er honum bent á að hafa samband við ABLER, sem mun laga eins fljótt og auðið er, allar villur í forritinu sem félagið kann að rekast á, á þann hátt sem ABLER telur viðeigandi. Villur sem stafa af vélbúnaðarbilunum eða truflunum, töpuðum gögnum eða truflunum á netþjónustu vegna þriðja aðila, eru sérstaklega undanskildar ábyrgð.
- Takmörkun bótaskyldu: ABLER er ekki bótaskylt vegna beins, óbeins, afleidds eða tilfallandi tjóns eða lögfræðikostnaðar vegna málsóknar, utan eða innan samninga, þrátt fyrir að ABLER gæti hafa verið ljóst að bótakrafa væri fyrir hendi.
3. Útgáfa og innheimta greiðsluseðla
- Almennt um innheimtuþjónustuna og verkferlið
- Allir greiðsluseðlar sem gefnir eru út í kerfum ABLER eru gefnir út af Greiðslumiðlun og innheimtir af þeim sjálfum og eftir atvikum Motus og Lögheimtunni, hér eftir nefnt GML.
- Þjónusta GML vegna krafna sem stofnast í kerfum ABLER nær aðallega til fimm þjónustuþátta. Í fyrsta lagi er um að ræða fruminnheimtu, sem felur í sér útsendingu innheimtuviðvörunar í nafni kröfuhafa (KH). Í öðru lagi milliinnheimtu, áður en tilefni er til lögfræðilegra aðgerða. Í þriðja lagi nær samningur til kröfuvaktar sem er þjónusta ætluð til innheimtu þeirra krafna sem ekki hefur tekist að fá greiddar þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir í milliinnheimtu og/eða löginnheimtu. Í fjórða lagi er um að ræða löginnheimtu sem felst í beitingu lögfræðilegra innheimtuúrræða. Í fimmta lagi er um að ræða millilandainnheimtu sem felst í innheimtu krafna utan Íslands, með aðstoð samstarfsaðila GML.
- Aðilar skulu koma sér saman um verkferla við innheimtu krafna og skulu þeir teljast hluti samnings. Breytingar á verklagsferlum eru heimilar enda séu samningsaðilar sammála um þær og hafa slíkar breytingar engin áhrif á gildi/efni samnings þessa að öðru leyti.
- GML er heimilt að hafa milligöngu um að þær skuldir sem uppfylla skilyrði til skráningar á vanskilaskrár verði skráðar í vanskilaskrá Creditinfo ehf. eða hliðstæða skrá, nema þegar ósk berst um annað frá KH.
- Starfsfólki GML er heimilt að veita greiðslufresti fyrir hönd KH, eftir því sem eðlilegt telst til innheimtu kröfunnar.
- GML tekur að sér að senda innheimtuviðvaranir sem KH ber að senda samkvæmt innheimtulögum og innheimtu allra vanskilakrafna fyrir KH með þeim hætti sem nánar er greint í samningi þessum. Innheimtuviðvörun sem GML sendir í nafni KH skal almennt send út innan 10 daga frá eindaga kröfu.
- Sjái GML ekki um útsendingu innheimtuviðvarana fyrir KH og hafi slík viðvörun ekki verið send, eða ekki rétt að henni staðið, ber KH að greiða áfallinn og útlagðan kostnað MOTUS, ef greiðandi hafnar greiðslu.
- Kostnaður við sendingu innheimtuviðvörunar leggst á greiðanda kröfu og rennur beint til GML. Innheimtugjald lagt á greiðanda í milliinnheimtu er gjald á hverja aðgerð sem GML grípur til við innheimtu kröfunnar. Gjaldið tekur mið af þeirri fjárhæð sem til innheimtu er og miðast við gjaldskrá GML á hverjum tíma. Greiðandi kröfunnar greiðir innheimtugjaldið, nema um annað sé samið sérstaklega.
Kröfuvakt og millilandainnheimta - Í kröfuvakt er heimilt að semja um vaxtastig, fella niður vexti og hluta höfuðstóls kröfunnar og semja um greiðsludreifingu til lengri tíma, ef það samræmist hagsmunum KH, að mati GML.
- Ef ekki er samið um annað hefur GML fullt umboð KH til flutnings á kröfum yfir í kröfuvakt í þeim tilfellum sem krafa hefur ekki fengist greidd í milliinnheimtuferlinu. Hafi málið farið í gegnum milliinnheimtu hjá GML ber KH engan kostnað af því að skrá eða hafa kröfur sínar í kröfuvakt, en GML fær í sinn hlut 50% af innheimtum höfuðstól og vöxtum.
- Við ráðstöfun innborgana á kröfur í millilandainnheimtu er farið að lögum og reglum í hverju landi. Innheimtugjald lagt á greiðanda er fast gjald á hverja ítrekun sem GML sendir út. Gjaldið tekur mið af þeirri fjárhæð sem til innheimtu er og miðast við gjaldskrá GML á hverjum tíma á hverjum stað. Greiðandi kröfunnar greiðir innheimtugjaldið, nema um annað sé samið sérstaklega.
- GML tekur að sér umsjón með löginnheimtu að aflokinni hefðbundinni millilandainnheimtu að höfðu samráði við KH. KH getur einnig valið um að setja kröfur sínar beint í löginnheimtu erlendis án þess að fara með þær fyrst í gegnum milliinnheimtu. Í þessum tilvikum gildir gjaldskrá hvers lands fyrir sig hverju sinni. KH skal greiða allan áfallinn kostnað GML eða umboðsaðila, sem haft hefur kröfu til innheimtu, enda hafi áður verið haft samráð við KH.
Lögheimtan - Í löginnheimtu leggst innheimtugjald eða málskostnaður á kröfu, þóknun fyrir einstakar aðgerðir til innheimtu kröfunnar, hvers konar útlagður kostnaðar af innheimtunni, sem og vextir af þóknun og kostnaði. Greiðandi kröfunnar greiðir almennt allan kostnað af innheimtunni, nema um annað sé samið sérstaklega. Þóknanir taka mið af gjaldskrá Lögheimtunnar á hverjum tíma.
- Nauðasamningur skal ekki gerður við greiðanda, eða annars konar eftirgjöf kröfu veitt af Lögheimtunni, án samþykkis KH, nema krafa sé komin í kröfuvakt.
- Lögheimtunni ber að hafa samráð við KH um boð í eignir á nauðungarsölu, sem leiða kunna til uppboðskaupa. Séu uppboðskaup gerð skal kostnaður Lögheimtunnar vegna innheimtunnar gerður upp þegar uppboðsafsal liggur fyrir. Lögheimtan aðstoðar við rýmingu húsnæðis, berist ósk um það frá KH. Kostnaður við rýmingu er samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar.
- Greiðist áfallin þóknun og kostnaður að fullu, án þess að greiðandi hafi uppi varnir gegn greiðsluskyldu sinni, ber KH engan kostnað af innheimtu kröfunnar, nema ákvörðuð þóknun dómara sé lægri en áfallinn kostnaður.
- Reynist innheimtuaðgerðir árangurslausar ber KH að greiða þóknun samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar á hverjum tíma, auk virðisaukaskatts og alls kostnaðar sem Lögheimtan hefur lagt út vegna innheimtunnar. Gildandi gjaldskrá er birt á viðskiptavef GML, sem er aðgengilegur af www.motus.is.
- Taki greiðandi til varna, fyrir dómi eða á öðrum stigum innheimtunnar, hefur Lögheimtan samráð við KH um frekari aðgerðir. Sama á við ef birting stefnu eða greiðsluáskorunar tekst ekki hér á landi. Lögheimtan heldur þá skrá yfir þá tíma sem varið er til rekstrar málsins og gerir KH reikning, samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar. Lögheimtan getur hvenær sem er áskilið sér greiðslu fyrir áætlaðri þóknun og kostnaði, áður en málinu er haldið áfram.
- Lögheimtan skal jafnan kostgæfa að grípa ekki til innheimtuaðgerða nema þær séu líklegar til að skila árangri. Í vafatilvikum skal hafa samráð við KH. Öðru jöfnu skal þó gera kröfu aðfararhæfa og biðja um fjárnám hjá greiðanda, nema gjaldþrotaskipti eða nýlegt árangurslaust fjárnám gefi tilefni til annars.
Gildistími og uppsögn - Með því að bjóða uppá útgáfu greiðsluseðla úr kerfum ABLER telst KH samþykkja skilmála GML og gildir samkomulag aðila á meðan KH nýtir þjónustu GML í kerfum ABLER.
- Sé samningi sagt upp hefur GML rétt á að ljúka innheimtu á þeim málum sem skráð hafa verið í ferlið og þeim sem berast á uppsagnarfresti. Óski KH eftir afturköllun á kröfum sínum úr kröfuvakt á GML rétt á greiðslu 50% af samanlögðum höfuðstól krafnanna.
Ýmis atriði - Í þeim tilvikum sem kveðið er á um árangurstengda innheimtuþóknun reiknast hún af innheimtum höfuðstól og vöxtum. GML er heimilt að láta skráningar- og áskriftagjöld fylgja breytingum á gjaldskrá eða vísitölu neysluverðs, miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá janúarmánuði þess árs sem samningur er gerður. Fjárhæðir í þessum samningi eru án virðisaukaskatts.
- KH skal hafa aðgang að viðskiptavef GML, þar sem hægt er að fá upplýsingar um stöðu einstakra krafna á hverjum tíma. GML birtir daglega á viðskiptavefnum heildaryfirlit yfir stöðu allra innheimtumála.
- Allar innborganir á kröfur skulu varðveittar á fjárvörslureikningi. GML skal daglega millifæra innborganir á bankareikning KH, vegna milliinnheimtu og kröfuvaktar, en hálfsmánaðarlega vegna löginnheimtu, nema um annað sé samið sérstaklega.
- Eftir að krafa hefur verið skráð til innheimtu, veitir GML greiðslu kröfunnar viðtöku, nema samið sé um skiptar greiðslur. Með skiptum greiðslum er átt við að á meðan kröfur eru virkar í kröfupotti viðskiptabanka KH berist greiðslur þaðan til hvors aðila. Verði vanskil á greiðslum KH á reikningum GML eða ekki staðið við greiðslusamkomulag á öðrum gjaldföllnum reikningum frá GML, hefur GML á öllum stigum heimild til að breyta þessari ráðstöfun og ráðstafa öllum innborgunum fyrst til greiðslu hvers konar vanskila við GML, en greiða mismuninn til KH.
- Ef krafa er greidd beint til KH, eftir skráningu, ber KH að standa GML skil á áfallinni þóknun, áföllnum innheimtukostnaði, skráningargjaldi og árangurstengdri þóknun til GML, eftir því sem við á.
- Innborganir á kröfur ganga fyrst til greiðslu á vöxtum af útlögðum kostnaði, þá til greiðslu á útlögðum kostnaði og svo til greiðslu á innheimtugjaldi og annarri þóknun. Þegar innheimtugjaldið og þóknun er greidd ganga innborganir fyrst upp í vexti og því næst höfuðstól kröfunnar. Þetta gildir þótt krafan greiðist ekki að fullu.
- GML er heimilt að tilgreina KH opinberlega í kynningarskyni sem einn af sínum viðskiptavinum, þ.m.t. senda út fréttatilkynningar, birta auðkenni (logo) o.s.frv.
- GML skuldbindur sig til að sinna innheimtunum af kostgæfni, hraða og með fullri virðingu fyrir greiðanda, enda sé tekið tillit til sambands greiðanda og KH í hverju tilviki.
4. Notendaskilmálar
Þessir þjónustuskilmálar kveða á um hvernig ABLER veitir notendum sínum aðgang að hugbúnaði sínum og notkun á honum. Notendur sem kjósa að nota hugbúnað ABLER staðfesta með því að þeir hafi lesið, skilið og samþykkt skilmálana.
- Skilgreiningar
- „Við“, „okkar“ eða „okkur“ vísar til hugbúnaðar og tölvukerfa í eigu ABLER, starfsmanna okkar, yfirmanna, stjórnenda, dótturfyrirtækja og hlutdeildarfyrirtækja.
- „Þú“ „þig“ „þér“ eða „þín“ vísar til einstaklings eða aðila sem er skráður notandi þjónustu hugbúnaðarins hjá okkur.
- „Skilmálar“ merkja þjónustuskilmála okkar og skilmála um friðhelgi.
- „Vefsvæði“ merkir vefsetur okkar á www.abler.io og www.abler.is ásamt öllum undirlénum og síðum sem tengdar eru lénunum og önnur vefsetur sem við rekum núna eða síðar.
- „Þjónusta“ merkir vefsetur okkar, öpp (vefur, IOS og Android) forritaskil (API), efni okkar, hugbúnaður okkar og þjónusta þriðja aðila sem koma að hugbúnaði ABLER.
- „hugbúnaður“ merkir tölvukerfi okkar, öpp og þjónusta.
- „Upplýsingar“ merkir öll gögn sem þú veitir okkur t.d. símanúmer, netfang o.fl. sem við fáum hjá þér við notkun þína á þjónustunni, frá hugbúnaði þínum og tækjum. Einnig er átt við upplýsingar sem við vinnum fyrir hönd félagsins (viðskiptavinar okkar) sem „gagnavinnsluaðili“ skv. GDPR svo við getum veitt sambandinu þjónustu okkar. Þetta nær til nafna einstaklinga sem félagið kýs að skrá í þjónustu okkar.
Almennir skilmálar - Til að nota hugbúnaðinn verður þú að: (a) ljúka skráningarferlinu; (b) veita núgildandi og réttar upplýsingar; (c) og með notkun hugbúnaðarins samþykkir þú þessa skilmála og lofar að fara eftir þeim.
- Þú berð ábyrgð á öllu efni sem þú veitir og allri virkni þinni í hugbúnaðinum.
- Þú notar hugbúnaðinn samkvæmt gildandi lögum og reglum.
- Þú notar ekki hugbúnaðinn til að falast eftir aðgerðum sem brjóta í bága við réttindi okkar eða réttindi annarra þ.m.t. til þess að hlaða inn, senda eða dreifa með öðrum hætti ámælisverðu efni, samkvæmt okkar mati.
- Ef þú ert yngri en 13 ára skaltu eingöngu nota hugbúnaðinn með vitund og heimild foreldris eða forráðamanns. Ef þú ert yngri en 13 ára ættirðu ekki að veita persónugreinanlegar upplýsingar án vitundar og heimildar foreldris eða forráðamanns.
- Ef þú brýtur reglu/reglur í skilmálum þessum, getum við rift aðgangi þínum fyrirvaralaust. Aðgerðir þínar gætu einnig varðað við lög.
- Meðan þú hlítir notendaskilmálum okkar veitum við þér almennan óframseljanlegan og takmarkaðan rétt til að nota hugbúnaðinn. Notkun þín á hugbúnaði Abler er á þína eigin ábyrgð.
Hugverkaréttur - Þú átt efnið þitt. Við óskum ekki eftir eignarrétti eða hugverkarétti á upplýsingum sem þú veitir okkur eða eru veittar okkur. Við eigum hugbúnaðinn og þjónustu okkar. Óheimilt er að afrita, endurskapa, breyta, bæta, endurselja, spegla eða þróa afleidda útgáfu af hugbúnaði Abler, þjónustu okkar eða efni án skriflegrar heimildar okkar. Þú veitir okkur endurgjaldslausa, alheimsgilda, framseljanlega, undirleyfisbæra, óafturkræfa og óendanlega heimild til að fella inn í hugbúnaðinn eða nýta með öðrum hætti tillögur, bætingarbeiðnir, meðmæli eða aðra endurgjöf sem við fáum frá þér eða umboðsaðilum þínum.
Aðgangsorð og aðgangar - Þú berð ábyrgð á aðgangsheiti þínu og aðgangsorði. Þú berð einnig ábyrgð á reikningum sem þú hefur aðgang að. Þú samþykkir að tilkynna okkur tafarlaust um óheimila notkun á aðgangi þínum. Við berum ekki ábyrgð á tjóni vegna stolinna eða hakkaðra aðgangsorða. Þér er óheimilt að koma fram sem annar einstaklingur eða aðili nema viðkomandi einstaklingur eða aðili hafi veitt þér skriflega heimild til þess.
Uppsögn og riftun - Þú berð alfarið ábyrgð á réttri uppsögn á aðgangi þínum. Þú getur sagt upp aðgangnum hvenær sem er með því að hafa samband við okkur og segja upp með sannanlegum hætti. Ef þú ert notandi hugbúnaðarins og vilt leggja fram beiðni varðandi aðgang þinn eða persónugögn vegna þjónustunnar sem við veitum félagi þínu og gagna sem við vinnum skaltu hafa strax samband við félagið þitt. Ef þú hefur fyrst samband við okkur, vísum við á félagið þitt. Við uppsögn eða riftun verður aðgangur þinn strax óvirkur og ekki er hægt að endurheimta upplýsingar af lokuðum aðgangi. Við höldum réttinum til að varðveita eða eyða veittum gögnum þínum ef við óskum þess. Við áskiljum okkur einnig rétt til en er ekki skylt að neita neinum um þjónustu og loka aðgangi án tilkynningar eða ástæðu.
API skilmálar - Þú getur notað reikningsgögn þín hjá Abler með forritaskilum Abler (API). Notkun API, þar á meðal með vöru þriðja aðila sem hefur aðgang að hugbúnaði Abler, lýtur þessum skilmálum. Þú skilur og samþykkir sérstaklega að við berum ekki ábyrgð á beinum, óbeinum, tilfallandi, sértækum, afleiddum eða sérstökum skaða, þar á meðal en takmarkast ekki við skaða vegna tekjutaps, viðskiptavildar, gagna eða annars óáþreifanlegs skaða (þótt við höfum fengið upplýsingar um möguleika á slíkum skaða) vegna notkunar þinnar á API eða vöru þriðja aðila sem hefur aðgang að gögnum þínum gegnum API. Misnotkun eða of tíðar beiðnir til Abler gegnum API getur leitt til tímabundinnar eða varanlegrar lokunar á aðgangi þínum að API. Okkur er heimilt að ákvarða misnotkun eða ofnotkun á API. Við áskiljum okkur rétt til að breyta eða slíta, tímabundið eða varanlega, aðgangi þínum að API í heild eða hluta með eða án fyrirvara.
Skaðleysi - Þú samþykkir að skaðleysa okkur gagnvart öllum kröfum, tjóni, ábyrgð, fjárkröfum eða kröfum vegna kostnaðar, þar á meðal lögfræðikostnaðar frá þriðja aðila vegna eða í tengslum við notkun þína á hugbúnaði ABLER.
Fyrirsvar og tryggingar - Að því marki sem lög heimila bjóðum við hugbúnaðinn á grundvelli tækni okkar ásamt tækni frá þriðja aðila og við veitum enga tryggingu hvorki beina né óbeina, þar á meðal en takmarkast ekki við tryggingu fyrir söluhæfi og hæfi fyrir tiltekinn tilgang eða tryggingu fyrir því að (i) hugbúnaðurinn uppfylli sértækar kröfur þínar, (ii) hugbúnaðurinn virki ótruflað, öruggt eða villulaust, (iii) niðurstöður notkunar hugbúnaðarins verði nákvæmar eða áreiðanlegar, (iv) gæði vöru, þjónustu, upplýsinga eða annars efnis sem er keypt eða fengið með notkun hugbúnaðarins uppfylli væntingar þínar, og (v) villur í hugbúnaðinum verði leiðréttar.
Takmörkun ábyrgðar - Að því marki sem lög heimila tekur þú fulla ábyrgð á og við krefjum þig ábyrgðar á óbeinu, afleiddu, sértæku, tilviljanakenndu eða refsiverðu tjóni, þar á meðal á tekjutapi, þrátt fyrir að okkur hafi verið tjáð frá möguleika á slíku tjóni. Við neitum allri ábyrgð á aðgerðum, vanefndum og framferði þriðja aðila sem tengjast notkun þinni á hugbúnaðinum og tengdum síðum og þjónustu. Eina úrræði þitt gagnvart okkur vegna óánægju með hugbúnaðinn er að hætta að nota hann. Þessi takmörkun á úrræði er hluti af samningi milli okkar, sem þú samþykkir með notkun hugbúnaðarins. Framangreint afsal gildir um tjón, ábyrgð eða skaða, hvort sem það er vegna samningsrofs, bóta, vanrækslu eða annars. Ef við teljumst bótaskyld gagnvart þér, þrátt fyrir önnur ákvæði skilmálanna, vegna tjóns eða taps sem verður til vegna eða tengist notkun þinni á hugbúnaðinum eða þjónustu okkar, nema bætur okkar ekki hærri upphæð en þeirri sem þú greiddir okkur fyrir þjónustuna í nýliðnum mánuði ef svo færi að við færum að innheimta gjald fyrir þjónustu okkar fyrir þig. Í sumum lögsögum er takmörkun ábyrgðar ekki heimil og því kynnu þessi takmörk ekki að gilda um þig.
Ráðandi lög; Lausn ágreinings - Þú samþykkir að um öll mál varðandi aðgang þinn eða notkun á hugbúnaði ABLER, þar á meðal allan ágreining, gildi íslensk lög og allar kröfur samkvæmt þessum notkunarskilmálum skulu fram lagðar innan eins (1) árs frá tilefninu, ellegar eru slíkar kröfur eða aðgerðir ómarktækar. Ekki má leita eftir eða taka við bótum öðrum en vegna útlagðs kostnaðar, nema siguraðili eigi rétt á greiðslu kostnaðar og lögfræðikostnaðar. Ef ágreiningur verður til milli okkar vegna eða í tengslum við notkun þína á hugbúnaðinum eða þjónustunni skulu aðilar í góðri trú reyna að leysa hann. Ef ekki tekst að leysa ágreining innan sanngjarns tíma (ekki lengur en þrjátíu (30) dagar) getur hvor aðili um sig vísað ágreiningnum til sáttameðferðar. Ef málamiðlun ber ekki árangur er aðilum frjálst að nýta rétt sinn eða úrræði samkvæmt gildandi lögum.
Force Majeure - Þú samþykkir að við berum ekki ábyrgð á töfum eða vanefndum á framkvæmd neins hluta þjónustunnar af óviðráðanlegum orsökum.
Sjálfstæði einstakra greina - Ef einn eða fleiri hlutar skilmálanna teljast ófullnustuhæfir af einhverjum orsökum verða viðkomandi hlutar fjarlægðir eða þeim breytt eins lítið og þörf krefur og verða önnur ákvæði áfram gild og fullnustuhæf.
Framsal - Þér er óheimilt að framselja rétt þinn samkvæmt samningi þessum. Okkur er heimilt að framselja réttindi okkar til annarra einstaklinga eða aðila.
Ekkert afsal - Vanefndir okkar að beita eða fullnusta rétt eða ákvæði skilmálanna teljast ekki afsal á viðkomandi rétti eða ákvæði.
Samningurinn í heild - Þessir skilmálar og öll tengd skjöl sem eru hluti af þeim með tilvísun og án tilvísunar, eru samningurinn í heild milli okkar og ráða notkun þinni á hugbúnaðinum.
Viðaukar og breytingar á hugbúnaðinum - Við áskiljum okkur óskoraðan rétt til að breyta, lagfæra, bæta við eða fjarlægja hluta af skilmálunum hvenær sem er. Viðaukar eða breytingar á skilmálunum öðlast ekki gildi fyrr en við birtum uppfærða skilmála á heimasíðu okkar. Ef annað er ekki tekið sérstaklega fram, eru öll ný atriði sem bæta eða breyta hugbúnaði ABLER með fyrirvara um skilmálana. Það er á þína ábyrgð að athuga reglulega hvort breytingar hafi orðið á skilmálunum. Áframhaldandi notkun þín á hugbúnaði ABLER eftir birtingu breytinga merkir að þú samþykkir breytingarnar. Við áskiljum okkur rétt til að gera eftirfarandi, hvenær sem er, án tilkynningar til þín: (1) Breyta, stöðva eða hætta starfsemi eða aðgangi að hugbúnaði ABLER eða hluta hans af einhverjum ástæðum; (2) breyta ABLER eða hluta þess og gildandi stefnum eða skilmálum; og (3) trufla eða raska hefðbundinni starfsemi ABLER eða hluta þess eins og þörf krefur vegna reglulegs eða sértæks viðhalds, leiðréttinga eða annarra breytinga.
Síðast uppfært: 11.desember, 2022